Ferill 858. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1669  —  858. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um fullgildingu Parísarsamningsins.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Helgu Hauksdóttur, Hrund Haf­steinsdóttur og Þorvald Hrafn Yngvason frá utanríkisráðuneyti og Huga Ólafsson frá umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Þá fékk nefndin ítarlegar kynningar um stefnu Íslands í loftslagsmálum á fundum í aðdraganda leiðtogafundar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál í París þar sem samningurinn var gerður.
    Með þingsályktunartillögunni er leitað eftir heimild Alþingis til að fullgilda fyrir Íslands hönd Parísarsamning Sameinuðu þjóðanna sem samþykktur var í París 12. desember 2015. Umhverfis- og auðlindaráðherra skrifaði undir samninginn fyrir Íslands hönd við formlega undirskriftarathöfn Sameinuðu þjóðanna í New York 22. apríl 2016.
    Markmið Parísarsamningsins er að halda hækkun hitastigs jarðar vel undir 2°C miðað við meðalhitastig jarðar fyrir iðnvæðingu, en að leitað skuli jafnframt leiða til þess að halda hækkun hitastigs undir 1,5°C miðað við hitastig jarðar fyrir iðnvæðingu.
    Í athugasemdum með tillögunni kemur fram að Parísarsamningurinn myndi ramma utan um skuldbindingar ríkjanna sem nefnast „landsákvörðuð framlög“. Ríkin tilkynna reglulega landsákvörðuð framlög sín til skrifstofu loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna sem fela í sér markmið um minni losun gróðurhúsalofttegunda og upplýsingar um fleiri aðgerðir í loftslagsmálum, ýmist til fimm eða tíu ára. Þróuð ríki skuli halda áfram að leiða það verkefni að draga úr losun í öllu hagkerfinu. Þróunarríki eiga á sama tíma að halda áfram að reyna að draga úr losun og eru hvött til þess með tímanum að taka upp markmið sem ná yfir allt hagkerfið. Þróunarríki skulu fá stuðning frá þróuðu ríkjunum við framkvæmd samningsins.
    Hvert ríki skal gefa reglulega upplýsingar um bókhald um losun gróðurhúsalofttegunda og upptöku kolefnis úr andrúmslofti, auk upplýsinga um árangur í tengslum við lands­ákvarðað framlag. Á fundum aðildarríkja skal reglulega gera alhliða úttekt á framkvæmd Parísarsamningsins, svonefnda „hnattræna athugun á stöðu“.
    Á fundi nefnarinnar kom fram að ætlað landsákvarðað framlag Íslands er að ná fram í samstarfi við ESB og Noreg 40% samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda árið 2030 miðað við útblástur árið 1990. Fyrir liggja nánari viðræður Íslands, Noregs og ESB um útfærslu á regluverki og hlut hvers í fyrrnefndri minnkun losunar. Meginþættir regluverksins verða í fyrsta lagi áframhaldandi þátttaka í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir gróðurhúsaloft­tegunda en yfir 10.000 fyrirtæki í Evrópu og á annan tug hérlendis fá úthlutað heimildum sem eru framseljanlegar á markaði. Í öðru lagi verða losunarmarkmið utan viðskiptakerfisins ákvarðaðar með því að beita sömu aðferðafræði og ríki ESB. Í þriðja lagi er áhersla á skógrækt og kolefnabindingu. Áætluð lok viðræðna Íslands, Noregs og ESB eru 2017–2018.
    Þá var á fundi nefndarinnar farið yfir sóknarfæri Íslands og tækifæri til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þar var annars vegar vísað til aðgerðaáætlunar 2010–2020 til að ná markmiðum 2. skuldbindingatímabils Kýótó-bókunarinnar um 20% minni losun og hins vegar til sóknaráætlunar 2016–2018 sem m.a. tekur til orkuskipta, rafbíla, skógræktar, endur­heimtar votlendis, matarsóunar, aðlögunar að loftslagsbreytingum, alþjóðlegra verkefna á sviði jarðhita og landgræðslu. Fyrir liggur að helstu möguleikar hérlendis á minni losun gróðurhúsalofttegunda liggja í samgöngum, fiskveiðum og landbúnaði. Einnig er hægt að ná árangri með skógrækt, landgræðslu og endurheimt votlendis. Þá leggur Ísland sitt af mörkum til þróunarríkja í formi fjárstuðnings og aðstoðar við uppbyggingu á endurnýjanlegri orku.
    Nefndin áréttar mikilvægi þess að ríki heims taki með ábyrgum og afgerandi hætti á lofts­lagsvandanum. Ísland hefur alla burði til þess að byggja upp loftslagsvænt samfélag enda skipaði Ísland sér í hóp þeirra ríkja sem vildu ná metnaðarfullum samningi um loftslagsmál í París. Fullgilding Parísarsamningsins nú undirstrikar þessa afstöðu Íslands. Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.
    Frosti Sigurjónsson, Óttarr Proppé og Silja Dögg Gunnarsdóttir voru fjarverandi við af­greiðslu málsins en rita undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis. Ásta Guðrún Helgadóttir, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk áliti þessu.

Alþingi, 14. september 2016.

Hanna Birna Kristjánsdóttir,
form., frsm.
Elín Hirst. Frosti Sigurjónsson.
Óttarr Proppé. Karl Garðarsson. Silja Dögg Gunnarsdóttir.
Steinunn Þóra Árnadóttir. Vilhjálmur Bjarnason. Össur Skarphéðinsson.